Verðbólga í Kínverska alþýðulýðveldinu á ársgrunvelli mældist 6,9% í nóvembermánuði og hefur ekki verið hærri í ellefu ár. Verðbólgan kann að herða vilja stjórnvalda í Peking til þess að draga úr peningamagni í umferð en hún þykir, ásamt viðvarandi hagstæðum vöruskiptajöfnuði, til marks um hættuna á ofhitnun í hagkerfinu.

Verðbólgan í Kína er um þessar mundir drifin áfram af háu matvælaverði, sem meðal annars orsakast af skorti á svínakjöti og háu heimsmarkaðsverði á fóðri. En þrátt fyrir það orsakar hátt orkuverð undirliggjandi verðbólguþrýsting í hagkerfinu.

Í síðustu viku tilkynntu forráðamenn Kínverska alþýðubankans um aukið aðhald í rekstri peningamálstefnunnar vegna verðbólguvæntinga og möguleikans á ofhitnun í hagkerfinu.

Breska blaðið Financial Times segir að flestir sérfræðingar í kínverskum efnahagsmálum telji að stjórnvöld muni auka enn frekar aðgerðir til þess að hamla útlánum banka- og fjármálastofnana: Vextir muni fara hækkandi á næstu mánuðum og bindiskylda fjármálastofnana verði aukin. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi hækkað vexti fimm sinnum á þessu ári og hækkað bindiskylduna tíu sinnum hefur það hvorki haft áhrif á þenslu né verðbólgu.

Auk þessa leiða sérfræðingar að því líkum að kínversk stjórnvöld komist vart hjá því að leyfa gjaldmiðli landsins, júaninu, að styrkjast enn frekar gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda sinna.

Sé lærdóm að finna í fortíð er ljóst að brýn þörf er á því að kínverskum peningamálayfirvöldum takist að koma böndum á verðbólgu og koma í veg fyrir ofþenslu. Í byrjun næsta árs fara fram stjórnarskipti bæði í Peking og í héraðsstjórnum. Eins og kínverski seðlabankastjórinn hefur bent á hafa slík stjórnarskipti átt sér stað samfara gríðarlegri útlánaaukningu fjármálastofnana, þar sem nýju leiðtogarnir hafa freistast til að örva vöxt með þensluhvetjandi aðgerðum. Þegar seðlabankastjórinn lýsti yfir nauðsyn þess að auka aðhald í peningamálum á dögunum benti hann meðal annars á að fyrsta fjórðunginn, þegar slík stjórnarskipti áttu sér stað árið 2003, jukust útlán fjármálastofnana um 250% á ársgrundvelli.