Tólf mánaða verðbólga í Suður Kóreu var 4,9% í maí og hefur ekki verið jafn há í sjö ár en hækkandi eldsneytis- og matarverð er sögð meginástæðan að sögn fréttavefs BBC.

Þegar hafði verið búist við 4,3% verðbólgu en hún var 4,1% í apríl.

Verðbólgan hefur nú verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í Suður Kóreu sex mánuði í röð en verðbólgumarkmiðið er 2%. Þá greinir BBC frá því að greiningaraðilar gera ráð fyrir að bankinn hækki stýrivexti fyrr en síðar.

Á því eru þó skiptar skoðanir. Park Sang-Hyun, yfirhagfræðingur hjá CJ Investment & Securities segir hækkandi verðbólgu fyrst og fremst stafa af hækkandi eldsneytis- og matarverði eins og áður kemur fram.

„Það er ekki ólíklegt að stýrivextir verði hækkaðir ef þetta ferli heldur áfram, en ég geri eins ráð fyrir því að stjórnvöld vilji styrkja won-ið (gjaldeyrir S.Kóreu) í staðinn,“ segir Sang-Hyun.