Greiningardeild Landsbankans spáir að verðbólga lækki lítillega í júlímánuði eða um 0,1%. Tólf mánaða verðbólga yrði í kjölfarið 3,4% en hún stendur nú í 4%. Hagstofan birtir niðurstöðu mælinga sinna þann 11. júlí næstkomandi.

Gangi spá greiningardeildar Landsbankans eftir fer verðbólga niður fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins í fyrsta sinn í tæp tvö ár. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er eins og kunnugt er 2,5% með efri og neðri þolmörk um 1,5% í hvora átt.

"Í mánuðinum togast á útsöluáhrif á fatnaði og skóm sem virka til lækkunar og hækkun húsnæðisverðs og eldsneytis," segir Greiningardeildin. Þá er einnig bent á að hækkun fasteignaverðs og eldsneytis hefur verið talsverð á þessu ári og að samkvæmt mælingum Hagstofunnar hafi eldsneytisverð hækkað um 7,7% frá áramótum og fasteignaverð um 9,6% á sama tíma.

Greiningardeild Landsbankans segir jafnframt að þrátt fyrir lækkun í júlí sé undirliggjandi þrýstingur í hagkerfinu talsverður og að þegar útsöluáhrif ganga til baka eftir sumarútsölurnar þá fari verðlagið að hækka aftur strax í september og október.