Ársverðbólgan mælist nú 7,5% og lækkar frá 8,3% í síðasta mánuði, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Þetta er í takt við spár Seðlabanka Íslands um að verðbólga tæki nú að lækka.

Á vefsíðunni segir að síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 10,1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,2% sem jafngildir 5,0% verðbólgu á ári.

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í maí er 365,3 stig og hækkaði um 0,41% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 347,9 stig og hækkaði hún um 0,29% frá apríl.

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,2% (vísitöluáhrif 0,15%) á milli apríl og maí, þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs 0,18% en af lækkun raunvaxta -0,03%. Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 9,8% (0,10%) á sama tímabili en verð dagvara lækkaði um 0,6% (-0,11%).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í maí 2010, sem er 365,3 stig, gildir til verðtryggingar í júlí 2010. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.213 stig fyrir júlí 2010.