Í morgun voru birtar verðbólgutölur í Bretlandi og mældist lækkun á vísitölu neysluverðs 0,3% í júlí, en það var nokkuð meiri lækkun en almennt hafði verið gert ráð fyrir. Verðbólga mælist nú 1,4% í landinu og minnkar um 0,2 prósentustig frá júní. Verðbólgan er því undir verðbólgumarkmiði Englandsbanka og innan vikmarka eins og stendur.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að margt bendir til þess að verðbólgan sæki á með haustinu og kemur þar helst til áhrif vegna mikilla hækkana á olíuverði, auk spennu sem ríkir á vinnumarkaði. Kalla þessir þættir á hækkandi framleiðslukostnað fyrirtækja, sem á endanum mun leiða út í almennt verðlag. Verðbólgumarkmið Englandsbanka er 2%, með 1% vikmörkum í hvora átt.

Þá voru jafnframt birtar tölur um viðskiptahalla Bretlands í morgun. Viðskiptahallinn hefur aukist í júní samanborið við fyrri mánuð. Nú mælist hallinn 3,8 milljarðar punda. Á öðrum ársfjórðungi í heild sinni mældist viðskiptahallinn 10,8 milljarðar punda, sem er mesti halli sem mælst hefur í landinu segir í Morgunkorninu.