Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,7% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,3% verðbólgu á ári samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júní er 364,1 stig og lækkaði um 0,33% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 346,3 stig og lækkaði hún um 0,46% frá maí.

Greining Íslandsbanka spáði í gær að verðbólga myndi minnka úr 7,5% í 6,0%. „Að okkar mati munu vegast hér áhrif af styrkingu krónu undanfarið og fjörkippur á íbúðamarkaði. Þannig hefur krónan styrkst um 8% frá áramótum gagnvart helstu viðskiptamyntum en ríflega helmingur styrkingarinnar átti sér stað í maí. Þrátt fyrir að verðlag sé oft á tíðum tregbreytanlegt niður á við í kjölfar gengisstyrkingar er áhrifanna víða byrjað að gæta í ýmsum innfluttum vörum sem stystan hillutíma hafa. Á hinn bóginn eru vísbendingar um að íbúðaverð hafi hækkað nokkuð undanfarið, en í síðustu mælingu átti húsnæðisliðurinn einmitt drjúgan þátt í hækkun VNV," sagði Greining Íslandsbanka í gær.