Á undanförnum árum hafa ríki sem hafa búið við háa verðbólgu ekki þurft að lúta refsivendi gjaldeyrismarkaða.

En ekki lengur: Nýmarkaðsríki á borð við Suður-Afríku, Rúmeníu og Tyrkland, auk þróaðri ríkja eins og Íslands og Nýja-Sjálands, hafa öll þurft að horfa upp á gengi gjaldmiðils síns falla mikið í verði það sem af er þessu ári.

Í umfjöllun The Economist Intelligence Unit (EIU) segir að þetta sé til marks um þá miklu breytingu sem hafi orðið á áhættumati á fjármálamörkuðum.

Og þetta nýja umhverfi á fjármálamörkuðum boðar sérstaklega slæm tíðindi fyrir þau ríki sem búa við háa verðbólgu og hafa mikinn halla á viðskiptum við umheiminn -- enda þurfa slík ríki að reiða sig í miklum mæli á erlenda fjárfestingu til að fjármagna viðskiptahallann.

Gjaldmiðlar fjölda ríkja með háa verðbólgu hafa fallið mikið í verði gagnvart evrunni og Bandaríkjadal á þessu ári.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins féll gengi rúmenska gjaldmiðilsins um 10% gagnvart evrunni. Og á sama tíma lækkaði gengi randsins, gjaldmiðils Suður-Afríku, um 20% gagnvart dalnum og tyrkneska líran um 14%.

Enginn gjaldmiðill hefur hins vegar lækkað jafn mikið í verði og íslenska krónan; gengi hennar féll um næstum 30% á milli janúar og maí gagnvart evrunni.

Verðbólga og mikill viðskiptahalli voru helstu orsakavaldarnir fyrir þessari gengislækkun, segir EIU.

Áður en lánsfjárkreppan skall á fjármálamörkuðum í fyrrasumar var hlutfallslega há verðbólga aftur á móti talin ástæða til að kaupa gjaldmiðil viðkomandi ríkis. Þetta byggðist á þeirri trú að nafnvextir myndu að sama skapi haldast háir og jafnvel hækka enn frekar.

Nánar verður fjallað um málið í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins á morgun.