Verðbólga jókst á Nýja Sjálandi á öðrum ársfjórðungi umfram væntingar seðlabanka landsins og eru afleiðingarnar meðal annars þær að gengi gjaldmiðils landsins hefur ekki verið sterkara gagnvart Bandaríkjadal í tuttugu og tvö ár.

Vísitala neysluverðs jókst um eitt prósent milli fjórðunga og mælist verðbólga, þegar ekki er tekið tillit til verðþróunar sem stýrist af gengi gjaldmiðla og alþjóðlegu orkuverði, 4,1% á ársgrundvelli. Í ljósi þessa er talið líklegt að enn ein vaxtahækkunin sé yfirvofandi en næsti vaxtarákvörðunardagur er þann 26. júlí næstkomandi.

Breska blaðið Financial Times hefur eftir Nick Tuffley, aðalhagfræðingi ASB Bankans í Auckley, að verðbólguþrýstingur sé mikill í "öllum þeim þáttum sem seðlabanki landsins hefur sérstakar áhyggjur af." Stjórnendur bankans horfa einkum til kjarnaverðbólgunnar í ákvörðunartöku sinni. Verðbólgumarkmið seðlabankans eru á bilinu 1 til 3%. Lækkandi orkuverð síðustu tólf mánuði og hátt gengi nýsjálenska dalsins hefur vegið upp á móti verðbólguþrýstingi. Hinsvegar hafa hækkanir á fasteignaáhrifum haft svokölluð auðhrif (e. wealth effect) sem hafa kynt undir eftirspurn í hagkerfinu. Þróunin á raforkuverði, matvöru, byggingarkostnaði og ýmissi þjónustu hefur einnig haft neikvæð áhrif á verðbólguþróunina.

Stýrivextir í Nýja Sjálandi eru átta prósent og eru þeir hvergi hærri í þróuðum ríkjum fyrir utan Ísland. Flestir hagfræðingar telja einsýnt að seðlabanki landsins muni hækka þá um 0,25% í lok þessa mánaðar til þess að stemma stigu við verðbólguþrýstingi. Vaxtastigið í landinu hefur gert það að verkum að fjárfestar sem stunda vaxtarmunarviðskipti sækja mikið í nýsjálenska dalinn og hefur það innstreymi haldið gengi gjaldmiðilsins afar háu. Stjórnendur seðlabankans hafa lýst yfir áhyggjum af þróuninni enda er það mat þeirra að gengi gjaldmiðilsins endurspegli ekki undirstöður hagkerfisins. Bankinn greip meðal annars inn í gjaldeyrismarkaði í síðasta mánuði en þá hafði nýsjálenski dalurinn náð sínu hæsta gildi frá því að hann var látinn fljóta árið 1985. Ólíklegt þykir að yfirvofandi vaxtarhækkun dragi úr áhuga fjárfesta sem stunda vaxtarmunarviðskipti á nýsjálenska dalnum en gengi hans hefur hækkað um 27% á síðustu tólf mánuðum