Verðbólgan á eftir að lækka hraðar en Seðlabankinn spáði í júlí, segir greiningardeild Landsbankans.

?Seðlabankinn spáði því að meðalverðbólga í ár yrði 8,1%, en mat okkar er að meðaltalið í ár verði 7,1% og að verðbólgan verði tekin að lækka þegar á næsta fjórðungi. Við gerum svo ráð fyrir mikilli lækkun á öðrum fjórðungi næsta árs, en Seðlabankinn reiknaði með hárri verðbólgu út allt næsta ár," segir greiningardeildin.

Hún segir að frá því að spá Seðlabankans var birt hefur bankinn hækkað stýrivexti um 125 punkta auk þess sem krónan hefur styrkst.

?Við teljum að gengi krónunnar muni styrkjast á fyrri hluta næsta árs og halda verðbólgunni í skefjum með svipuðum hætti og gerðist á árunum 2002-2003 þegar krónan styrktist á nýjan leik eftir að hafa fallið mikið á árunum 2000-2001. Þá er fasteignamarkaðurinn tekinn að kólna og fasteignaliður vísitölu neysluverðs virkar orðið jafnvel til lækkunar vísitölunnar, ólíkt því sem verið hefur," segir greiningardeildin.