Verðbólga hér á landi mældist 2,3% í október samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem Eurostat birtir mánaðarlega. Þetta er lítilsháttar aukning frá september en þá stóð hún í 2,1%. Samræmd vísitala neysluverðs er frábrugðinn þeirri vísitölu sem mæld er hér á landi en í samræmdu vísitölunni er hvorki tekið mið af húsnæðisverði né opinberri þjónustu, að því er fram kemur í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans. “Það má þó geta þess að Eurostat hefur lengi stefnt að því að bæta húsnæðisverði inn í vísitöluna en enn sem komið er hefur ekki verið ákveðið með hvaða hætti eða hvenær af því verður,” segir greiningardeildin. Ef litið er til Evrusvæðisins er verðbólga þar um 2,6% og hefur hækkað um 0,5% frá síðasta mánuði, segir greiningardeildin. Er það í takt við spár greiningaraðila að því er fram kemur á Bloomberg.  “Hækkunina má að hluta rekja til mikillar hækkunar á olíu og matvælum, en vægi olíu í vísitölunni er í mörgum landanna meira en hérlendis þar sem olía er nýtt við að upphitun húsnæðis víða í Evrópu. Í október mældist verðbólgan mest í Lettlandi (13,2%) og  Búlgaríu (10,6%). Hins vegar voru það Malta (0,3%) og Frakkland (1,4%) sem mældust lægst ásamt Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð sem voru með 1,5% verðbólgu,” segir greiningardeildin.