Verðbólga er nú meiri hér á landi en í helstu viðskiptalöndum og hefur frá því í maí verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Verðbólgan mælist nú 3,8% samanborið við 2,5% á sama tíma í fyrra. Útlit er fyrir að verðbólgan verði áfram mikil á næstunni. Reikna má með 3,7% verðbólgu yfir þetta ár og 3,0% yfir árið 2005. Þetta kemur fram í nýútkomnu Markaðsyfirliti Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að þeim þáttum sem leitt geta til aukinnar verðbólgu hafi fjölgað að undanförnu. "Meðal þessara þátta er bætt aðgengi almennings að lánsfé á lægri vöxtum og niðurstaða kjarasamninga í opinberum rekstri. Breytingar á íbúðalánamarkaði hafa leitt til aukins verðbólguþrýstings og ekki sér fyrir endann á þeim þrýstingi. Mat á forsendum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru framundan og eru í ljósi verðbólguþróunar og kjarasamninga opinberra starfsmanna líkur á að launaliður samninganna verði endurskoðaður til hækkunar. Þá bættist á dögunum við fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir á næstu misserum þegar tilkynnt var um frekari stækkun Norðuráls. Ofangreindir þættir hafa bæst við verðbólguhættuna sem þegar ríkir vegna stóriðjuframkvæmdanna sem ná munu hámarki á næstu tveimur árum," segir í Markaðsyfirlitinu.

Þar er einnig bent á að á móti verðbólguhættunni vegur að gengi krónunnar hefur hækkað. Hluta af styrk sínum sækir krónan í háa vexti hér á landi. Hækkun gengis krónunnar að undanförnu er því líkleg til að ganga til baka a.m.k. að hluta fyrir lok stóriðjuframkvæmda eða þegar Seðlabankinn lækkar vexti sína að nýju. Í þessu felst að slegið er á frest þeim hluta verðbólgunnar sem stafar af áhrifum stýrivaxta á gengi krónunnar.