Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,16% á milli maí og júní. Spár sem birtar voru opinberlega gerðu ráð fyrir hækkun á bilinu 0,7% til 0,9%, að sögn greiningardeildar Glitnis sem spáði 0,9% hækkun.

?Hækkun verðlags er því yfir væntingum sem verður að teljast neikvætt og því lækkaði gengi krónunnar nokkuð í kjölfar birtingarinnar í morgun," segir greiningardeildin og bendir á að flest leggist á eitt við hækkun verðlags um þessar mundir.

?Matvöruverð hækkaði nokkru meira en við reiknuðum með sem skýrir spáskekkjuna að hluta. Íbúðaverð hækkaði einnig talsvert þrátt fyrir vaxtahækkun og aukna verðbólgu auk þess sem viðhaldskostnaður hefur aukist verulega. Íbúðaverð hækkaði reyndar nokkuð minna en gert var ráð fyrir í spá okkar. Eldsneytisverð lækkaði líkt og reiknað var með," segir greiningardeildin.

Auknar líkur á vaxtahækkun

Verðbólgan er 8% og eykst frá fyrri mánuði þegar hún var 7,6%. ?Segja má að vaxandi verðbólga auki líkurnar á frekari vaxtahækkun Seðlabankans en við spáum því að bankinn fari með vexti sína í 13% fyrir árslok. Verðbólgan er nú meira en þrefalt verðbólgumarkmið Seðlabankans og um er að ræða tuttugasta og sjötta mánuðinn í röð sem verðbólga mælist yfir markmiði bankans," segir greiningardeildin en hún hefur spáð því um hríð að verðbólgan nái hámarki í um 9% í árslok en hjaðni í framhaldinu á næsta ári.

Greiningardeildin spáir því að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu í lok næsta árs.

Verðbólguþrýstingurinn mun minnka

"Flest bendir til þess að íbúðaverð muni lækka þegar horft er til næsta árs. Mikið framboð er framundan á íbúðamarkaði og á eftirspurnarhlið hafa vextir hækkað og aðgangur að lánum minnkað. Verðbólguskotið sem nú gengur yfir dregur úr kaupmætti og tiltrú neytenda á efnahagsmálin hefur snarminnkað. Þessir þættir munu valda hraðari hjöðnun verðbólgu en ella þegar horft er til næsta árs," segir greiningardeildin.
Þá segir hún að atvinnuleysi er mjög lítið og skýr merki eru um launaskrið á vinnumarkaði.

?Þó framleiðnivöxtur sé með ágætum er kostnaðarþrýstingur á verðlag mikill. Þegar kemur fram á næsta ár má reikna með því að úr þessum þrýstingi dragi eitthvað þar sem minni hagvöxtur dregur úr spennu á vinnumarkaðinum."

Gengi krónunnar hefur lækkað hratt undanfarna mánuði sem skapar tímabundinn þrýsting til hækkunar verðlags, að sögn greiningardeildar Glitnis. ?Teljum við að gengisvísitalan muni fara í um 135 stig að meðaltali á síðasta fjórðungi ársins en lækki á ný á næsta ári og nái jafnvægi í um 120 stigum að meðaltali á seinni helmingi 2007," segir greiningardeild Glitnis.