Í frétt frá Greiningardeild Landsbankans segir að verðbólga hefi tekið að hækka á ný eftir að hafa verið undir efri vikmörkum Seðlabankans í júlí og ágúst. Greiningardeildin spáir því að verðlag hækki á næstu mánuðum þar til grunnáhrif vegna lækkunar VSK eru dottin út. Þá telur deildin að draga muni úr verðbólgu og verðbólgumarkmið Seðlabankans náist í lok árs 2008.

Síðustu tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5%. Nokkuð hefur dregið úr verðbólgu á árinu og stefnir í að hækkun verðlags yfir árið verði um 4,5%. Greiningardeildin á von á því að undir lok næsta árs mælist verðbólgan eilítið undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu. Þá er reiknað með að lækkandi húsnæðisverð og háir vextir haldi aftur af hækkun neysluverðsvísitölunnar og ekki er talin von á því að verðbólgan víki verulega frá markmiði á næstu árum. Mest allt árið 2009 verður verðbólgan flöktandi í kringum verðbólgumarkmiðið.