Hagstofan birti í morgun vísitölu neysluverðs fyrir janúar. Mældist hún 239,2 stig og hækkaði því um 0,08% frá fyrri mánuði. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,0% og hefur því náð efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,56 frá því í desember en síðastliðna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 2,1%. Verðbólga án áhrifa þeirra miklu húsnæðisverðshækkana sem átt hafa sér stað að undanförnu er því undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Greiningardeild spáði 0,3% lækkun VNV í janúar og er niðurstaðan því töluvert yfir spá okkar. Frávik skýrist að mestu leyti af því að húsnæðisverð hækkaði mun meira en við gerðum ráð fyrir auk þess sem hækkun raforkuverðs reyndist meiri en gert var ráð fyrir í spánni. Markaðsverð húsnæðis hækkaði um 2,9% milli mánaða en við bjuggumst við mun minni hækkun eða 0,75% sökum þess að yfirleitt hægir á veltu á húsnæðismarkaði á þessum tíma eins og sjá má í grafinu hér að neðan.