Á meðan verðbólguþrýstingur heldur áfram að aukast í alþjóðahagkerfinu, er kannski kominn tími til að seðlabankastjórar heimsins láti af sjálfsánægju sinni. Hvernig væri að halda einn af fundum þeirra sem eru á tveggja mánaða fresti í Simbabve?

Það gæti að vísu reynst óþægilegt, en að sama skapi væri það lærdómsríkt. Samkvæmt opinberum hagtölum frá Simbabve mældist verðbólga 66.000% á síðasta ári, sem líkist miklu fremur ástandinu í Þýskalandi á Weimar-tímabilinu heldur en því sem þekkist í öðrum ríkjum Afríku um þessar mundir. Enda þótt menn viti ekki með fullkominni vissu hvernig stjórnvöld fara að því að fylgjast með verðbreytingum – það er nánast ekkert til sölu í flestum búðum landsins – þá benda flestir hagvísar til þess að Simbabve eigi góðan möguleika á því að setja heimsmet í verðbólgu. Auðvitað gætu forsvarsmenn helstu seðlabanka heimsins – þrátt fyrir að vera forvitnir menn að eðlisfari – ákveðið að fundahöld í Harare, höfuðborg Simbabve, væru of óþægileg og jafnframt óásættanleg í pólitísku samhengi. Sem betur fer eru hins vegar til margir aðrir fallegir staðir – þó þeir séu ekki jafn stórbrotnir – þar sem verðbólga grasserar. Verðbólga mælist í tveggja stafa tölum í Rússlandi, Víetnam, Argentínu og Venesúela, svo nokkur lönd séu valin af handahófi.

Lesið erlenda skoðun í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .