Það sem helst kemur á óvart í verðbólgumælingu í ágúst var umtalsverð lækkun á verði nýrra bíla upp á 4,4% sem hafði 0,16% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS greiningar vegna nýjustu verðbólgumælinga. Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun hækkaði vísitala neysluverðs um 0,52% frá fyrra mánuði í ágúst sem þýðir að 12 mánaða verðbólga mælist nú 10,9% en var í síðasta mánuði 11,3%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun 12 mánaða verðbólgu síðustu 5 árin. Þar sést hvernig verðbólgan náði hámarki í janúar á þessu ári eða 18,6% en hefur lækkað jafnt og þétt síðan þá ef undan er skilinn júnímánuður.

Hækkunin í þessum mánuði er lægri en spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir en þær lágu á bilinu 0,6% -0,9%. Verðbólga til 3 mánaða mælist nú 8,6% en IFS segir hana gefa góða mynd af undirliggjandi verðbólgu.

Áframhaldið veltur á gengi krónu

Það sem af er ári hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4%. IFS segir að enn hafi tafist að skrifa undir Icesave samninginn og lítið hafi heyrst af láni AGS síðustu daga.

„Gengi krónunnar hefur verið í veikingarfasa að undanförnu og flest bendir til að krónan verði veik áfram,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Af þeim sökum reiknum við með að verðbólgan yfir árið verði rúmlega 6%. Framvinda verðbólgu veltur þó nær að öllu leyti á þróun krónunnar.“