Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í september 2008 er 315,5 stig og hækkaði um 0,86% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 284,3 stig og hækkaði hún um 1,25% frá ágúst.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í morgun.

12 mánaða verðbólga mælist því 14% en síðastliðna tólf mánuði  hefur vísitala neysluverðs hækkað um 14,0% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 14,7%. 12 mánaða verðbólga í ágúst var 14,5%.

Þetta er í fyrsta skipti síðan í janúar sem verðbólga minnkar milli mánaða en frá því í júlí 2007 hefur það aðeins gerst einu þangað til nú.

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,7% sem jafngildir 11,4% verðbólgu á ári (12,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Fram kemur á vef Hagstofunnar að verð á fötum og skóm hækkaði um 11,2% (vísitöluáhrif 0,47%), aðallega vegna sumarútsöluloka. Verð á þjónustu hækkaði um 1,1% (0,30%). Þar af voru vísitöluáhrif af verðhækkun á opinberri þjónustu 0,08% og af verðhækkun annarrar þjónustu 0,22%.

Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,7% (-0,11%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,14% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,03%. Verð á nýjum bílum lækkaði um 1,8% (-0,14%).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í september 2008, sem er 315,5 stig, gildir til verðtryggingar í nóvember 2008. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 6.230 stig fyrir nóvember 2008.