Verðbólgan mælist nú 4,8% og eykst um nær heilt prósentustig á aðeins einum mánuði eða úr 3,7% í ágúst. Efri þolmörkin í markmiði Seðlabankans (4%) hafa því verið rofin með áberandi hætti og nú þarf bankinn að gera ríkisstjórninni skriflega grein fyrir áformum sínum til að ná verðbólgu niður í 2,5% á ný.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að Seðlabankinn geti varla túlkað nýjustu tölur á aðra vegu en sem neikvæð tíðindi jafnvel þótt hluti aukinnar verðbólgu stafi af hækkun olíuverðs og tilfærslu á útsöluáhrifum á milli mánaða. Aukin verðbólgan setur kjarasamninga í hættu og ógnar þannig stöðugleikanum á vinnumarkaði á næstu misserum. Aukin verðbólga eykur líkurnar á þeirri 0,5 prósentustiga vaxtahækkun sem við höfum spáð að Seðlabankinn muni tilkynna þann 29. september samhliða útgáfu Peningamála. Gengi krónunnar hefur hækkað um 0,7% í morgun í kjölfar tíðindanna.