Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,33% frá fyrri mánuði samkvæmt mælingu Hagstofunnar og er 366,7 stig. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 349,5 stig og hækkar um 0,43% frá nóvember. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,1% sem jafngildir 4,6% verðbólgu á ári, eða 5,4% verðbólga fyrir vísitöluna án húsnæðis.

Verð á bensíni og olíum hækkaði um 4,0% á milli mánaða (vísitöluáhrif 0,22%) og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 15,5% (0,12%).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í desember 2010, sem er 366,7 stig, gildir til verðtryggingar í febrúar 2011. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.240 stig fyrir febrúar 2011.