Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað, meðal annars vegna þess að gengislækkun krónunnar er fyrr á ferðinni en greiningardeildir bankanna höfðu gert ráð fyrir. Þá hefur hráefnisverð á erlendum mörkuðum farið hækkandi, auk þess sem óvissa ríkir um áhrif kjarasamninga á launakostnað fyrirtækja.

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir, í nýrri verðbólguspá sinni, að verðbólga verði í kringum 8% á árinu 2008 og nái hámarki á öðrum ársfjórðungi í rúmum 9%. Ásdís Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá deildinni, segir að verðbólguhorfur til skamms tíma hafi versnað, fyrst og fremst vegna gengisveikingar krónunnar.

„Það hefur sýnt sig að áhrif gengisbreytinga á verðlag koma mjög fljótt fram hér á landi, á fyrstu þremur mánuðum frá veikingu eru áhrifin mest. Við spáum því að verðbólgan verði mjög mikil alveg fram á sumar,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið. Deildin gerir ráð fyrir því að 12 mánaða verðbólga verði í kringum 7% í árslok.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .