Bandaríski seðlabankinn ætti að taka upp opinbert verðbólgumarkmið, enda myndi slík breyting á peningastefnu bankans hjálpa honum að glíma við fjármálakreppur og annars konar áföll í efnahagslífinu. Þetta kom fram í síðustu opinberu ræðu Frederics Mishkin, sem á sæti í stjórn bandaríska seðlabankans, áður en hann lætur af störfum fyrir seðlabankann og hverfur aftur til starfa við Columbia-háskóla.

Fram kom í ræðu Mishkins að „nákvæmt tölulegt verðbólgumarkmið gæti gegnt þýðingarmiklu hlutverki við að stuðla að fjármálastöðugleika og jafnframt til að viðhalda stöðugu verðlagi og atvinnustigi.“ Mishkin sagði viðeigandi verðbólgumarkmið geta verið „um tvö prósent eða kannski aðeins lægra.“ Hann bætti því við að stefnusmiðir bandaríska seðlabankans ættu einnig að gera grein fyrir spám sínum um hugsanlegan hagvöxt og hvað þeir teldu náttúrulegt atvinnuleysi.

Þrátt fyrir að bandaríski seðlabankinn tæki upp opinbert verðbólgumarkmið ætti hann ekki að skuldbinda sig til að ná verðbólgumarkmiðinu yfir ákveðið tímabil, að mati Mishkins. Stefnusmiðir seðlabankans, fremur en kjörnir fulltrúar almennings, myndu skilgreina hvað væri viðeigandi verðbólgumarkmið. Mishkin færði rök fyrir því að þeir sem síðar meir tækju sæti í stjórn seðlabankans ættu að virða þetta verðbólgumarkmið, á sama hátt og hæstiréttur Bandaríkjanna virðir sín eigin dómafordæmi, og myndi aðeins breyta markmiðinu vegna „tæknilegra“ ástæðna.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .