Eins og fram kom í mælingu Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 1,14% í október sem var nokkuð umfram væntingar greiningaraðila.

Sem dæmi má nefna að bæði IFS Greining og Greining Íslandsbanka höfðu spáð 0,5% hækkun VNV þannig að 12 mánaða verðbólga hefði verið 9%. Þá hafði Hagfræðideild Landsbankans spáð 0,4% hækkun VNV og 8,9% verðbólgu.

12 mánaða verðbólga mælist nú hins vegar 9,7% en verðbólga 3 mánaða gefur góða mynd af undirliggjandi verðbólgu en hún mælist nú 10,2%.

„Hækkunin nú veldur vonbrigðum en hægt og illa hefur gengið að berja verðbólguna niður,“ segir í viðbrögðum IFS Greiningar.

„Fyrst snögg veiking krónunnar í vor og svo hafa skattahækkanir í sumar og haust lengt lífdaga verðbólgunnar verulega.“

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni að veruleg verðhækkun innfluttra vara og hækkun markaðsverðs á húsnæði séu helstu ástæður þess að verðbólga hjaðnaði hægar í október en flestir væntu.

Eins og við var búist hækkaði verð matar- og drykkjarvöru eða um 1,1% sem hafði 0,16% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Bæði IFS og Greining Íslandsbanka nefna sem dæmi að svokallaður sykurskattur sé enn að koma fram í matvælaverði. Verð á fatnaði hækkaði einnig í takt við væntingar. Verð á fötum og skóm hækkaði um 1,6% sem hafði um 0,1% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

„Svo virðist sem verð innfluttra vara hafi tekið nokkuð snarpan kipp upp á við í október þrátt fyrir tiltölulega stöðuga krónu undanfarna mánuði,“ segir í Morgunkorni.

„Á það ekki síst við um þá vöruflokka þar sem veltuhraði er tiltölulega lítill, til að mynda raftæki og húsbúnað. Bifreiðaliðnum verður þó að taka með nokkrum fyrirvara þar sem hann sveiflast mikið á milli mánaða.“