Jean-Claude Trichet, bankastjóri Evrópska seðlabankans, segir að verðbólguþrýstingur á evrusvæðinu muni vara lengur en fyrri spár hafi gert ráð fyrir.

Verðstöðugleika á evrusvæðinu stafar meiri hætta en áður af frekari verðhækkunum á matvælum og olíu, sagði Trichet á blaðamannafundi í Frankfurt sem haldin var í kjölfar stýrivaxtákvörðunar Evrópska seðlabankans.

Af þeim sökum er Evrópska seðlabankanum meiri vandi á höndum en áður, sagði Trichet. Hagfræðingar segja að ummæli Trichet megi túlka sem svo að seðlabankinn muni í engu hvika frá sínu helsta markmiði – að verðbólga haldist „undir en nálægt 2%“ – enda þótt það kunni að verða til þess að draga úr hagvexti aðildarríkjanna meira en ella.

Þetta endurspeglaðist jafnframt í endurskoðaðri verðbólgu- og hagvaxtarspá Evrópska seðlabankans. Bankinn reiknar nú með því að verðbólga muni mælast 2,4% á næsta ári, sagði Trichet. Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Holger Schmiedling, hagfræðingi hjá Bank of America, að verðbólguspá bankans sendi óvenjulega harkaleg skilaboð til markaðsaðila.

Trichet viðurkenndi að hagvöxtur á evrusvæðinu myndi sennilega dragast saman á næstu misserum. Jafnvel talinn möguleiki á því að niðursveiflan verði dýpri en 1,5% hagvaxtarspá bankans fyrir árið 2009 gerir ráð fyrir.

Þrátt fyrir að Tricet hafi komið sumum hagfræðingum á óvart með ummælum sínum er ekki víst að það sama eigi við um fjármálamarkaði. Markaðir með framvirka samninga hafa á undanförnum vikum gefið til kynna að Evrópski seðlabankinn muni ráðast í stýrivaxtahækkun áður en árið er liðið.