Greiningardeild Arion banka spáir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 3% samanborið við 3,3% í október.

Greiningardeildin segir að það sem hafi einna mest áhrif til hækkunar sé hrávöruverðshækkanir, t.d. á olíu, korni og kaffi, gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar og þá muni húsnæðisliðurinn hafa áhrif til hækkunar samkvæmt spánni.

„Þrátt fyrir að fasteignamarkaður sé í miklum hægagangi þá er húsnæðisliðurinn að hafa áhrif til hækkunar verðlags. Eins og glöggir lesendur muna voru áhrif húsnæðisliðarins sterk í október samkvæmt Hagstofunni, þ.e. til hækkunar. Fastlega má gera ráð fyrir því að húsnæðisliðurinn hafi áhrif til hækkunar í nóvember og desember enda tekið mið af breytingum síðustu þrjá mánuði. Þó ber að hafa þann vara á að afar erfitt getur verið að spá fyrir um þróun húsnæðisliðarins þar sem samband fasteignavísitölu FMR og Hagstofunnar er afar sveiflukennt.“