Verðbólguspá IFS greiningar fyrir desembermánuð hljóðaði upp á 0,7% fyrir tilkynningu um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar.

Nú hefur IFS greining endurskoðaða verðbólguspá sína en í nýrri verðbólguspá kemur fram að áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs er 0,4 til 0,5% hækkunar.

„Einnig bætist við að olíufélögin hafa ekki verið jafngrimm í verðlækkunum og IFS greining gerði ráð fyrir,“ segir í verðbólguspánni.

Þá kemur fram að skattahækkanir leiða til þess að í stað þess að 12 mánaða verðbólga hefði staðið nær í stað milli mánaða, hækkar hún nú úr 17,2% í 17,8% ef verðbólguspáin gengur eftir.

„Hafa verður þó í huga að mikil óvissa er um verðþróun milli mánaða, en tíðar og miklar sviptingar í gengi krónu hafa leitt til tíðra breytinga á vöruverði,“ segir í verðbólguspánni.

„Innfluttar vörur hækka í verði, eldsneyti lækkar Þrátt fyrir viðsnúning í gengisþróun krónunnar síðustu daga hefur styrkingin líklega lítil áhrif á vöruverð nú. Áhrif gengisbreytinga á vöruverð eru að öllu jöfnu nokkra mánuði að seytla inn og gerir IFS greining ráð fyrir að áhrif gengisveikingar krónu sé enn að koma inn í vöruverð.“

Hækkun matvara vegur þungt

Samkvæmt verðkönnun IFS greiningar var töluverð hækkun á matvöru á milli nóvember og desember. Mestu munar þar um mikla hækkun á grænmeti og ávöxtum. Sömuleiðis er mikil hækkun á innfluttum matvörum og gosdrykkjum.

„Mjólkurvörur hækkuðu mikið í síðasta mánuði en áhrif hækkunarinnar virðist þó að mestu hafa komið fram í vísitöluneysluverðs í síðasta mánuði,“ segir í verðbólguspánni.

„Að mati IFS greiningar mun hækkun matvöru leiða til 0,3% hækkunar á vísitölu neysluverðs.“

Þá kemur fram að líkt og innfluttu matvörurnar virðist verð á fatnaði hækka töluvert og virðist því sem að jólafötin verði dýrari í ár. Þó getur þetta verið ansi misjafnt milli verslana og sumstaðar hefur verð fatnaðar staðið í stað eða lækkað á meðan það hækkar um 30 til 40% annars staðar. Hækkun á fatnaði hefur um 0,2% áhrif á vísitöluna til hækkunar að mati greiningar.

IFS greining segir ýmiskonar innfluttur varningur hækkar töluvert milli mánaða og margt smátt gerir eitt stórt og gerir IFS greining að hækkun á ýmiskonar innfluttum vörum muni hækka vísitöluna um tæplega 1%.