Hagstofan mun birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir júní í fyrramálið og eins og venja er hafa greiningadeildir viðskiptabankanna skilað verðbólguspá fyrir mánuðinn.

Á myndinni hér til hliðar má sjá spá greiningadeildanna á 12 mánaða verðbólgu í júní.

Greiningadeildirnar eru nokkuð samhljóma þegar talin eru upp þau atriði sem gætu orsakað hækkun VNV en gefa sér mismunandi forsendur og býst til að mynda Greining Glitnis við mun minni hækkun VNV en greiningadeildir Landsbankans og Kaupþings.

Greiningadeild Landsbankans spáir því að VNV hækki um 1,2% í júní og 12 mánaða verðbólga verði því 13,1%.

Greiningadeild Kaupþings spáir því að VNV hækki um 1,1% og 12 mánaða verðbólga verði því 13%.

Greining Glitnis telur aftur á móti að VNV hækki um 0,6% í júní og 12 mánaða verðbólga verði því 12,4%.

Greiningadeild Landsbankans

Greiningadeild Landsbankans birti verðbólguspá sína þann 11. júní og gerir eins og fyrr segir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 1,2% í júní og þannig verði 12 mánaða verðbólga 13,1%.

Greiningadeildin segir áhrif af veikingu krónunnar þegar að miklu leyti komnar fram en telur þó að „enn sé nokkur hækkun eftir í pípunum.“ Þá er gert ráð fyrir því að fasteignaverð muni áfram draga úr verðbólgu á sama tíma og innflutningsverðlag hækkar enn.

Þá gerir Greiningadeild Landsbankans ráð fyrir að verðbólgan nái hámarki ágúst og verði þá 14% en fari eftir það ört lækkandi.

Greiningadeild Kaupþings

Greiningardeild Kaupþings birti spá sína þann 18. júní og en í henni er gert ráð fyrir 1,1% hækkun VNV í júní en til samanburðar hækkaði vísitalan um 1,4% í maí. Gangi spáin eftir verður 12 mánaða verðbólga 13%.

Þá telur Greiningadeild Kaupþings, líkt og Greiningadeild Landsbankans ráð fyrir því að verðbólgan nái hámarki í kringum 14% á næstu 2-3 mánuðum.

Greiningadeild Kaupþings segir eldsneyti og bifreiðar að öllum líkindum hækka meira en í síðasta mánuði en aðrar vörur hafi nú þegar hækkað.

„Verðþróun á eldsneyti skilar mestu til hækkunar VNV í júní - hækkað heimsmarkaðsverð hefur því skilað sér í verðlagið hér heima,“ segir í spá Greiningadeildar Kaupþings.

Þá segir Greiningadeild Kaupþings að hækkun matvöruverðs leggi nokkuð til verðbólgunnar.

„Vægi matar og drykkjarvöru er 12% í VNV og þrátt fyrir tiltölulega litla hækkun liðarins nú eru áhrif á vísitöluna umtalsverð. Húsnæðisliðurinn leggur lítið til verðbólgunnar í júní,“ segir Greiningadeild Kaupþings í verðbólguspá sinni.

Greining Glitnis

Í verðbólguspá Greiningar Glitnis sem birt var þann 10. júní var spáð 0,6% hækkun VNV frá fyrri mánuði og að ársverðbólga aukist úr 12,3% í 12,4%. Sú spá er óbreytt samkvæmt Morgunkorni Glitnis frá því í morgun.

„Frá því að við birtum síðustu spá eru komnar fram vísbendingar um að vissir undirþættir VNV þróist ekki með sama hætti og við spáðum en breytingin á þeim þáttum er bæði til hækkunar og lækkunar og áhrifin af því á VNV verða því lítil á heildina litið,“ segir í Morgunkorni í dag.

Greining Glitnis telur lítilleg hækkun á verði nýrra bíla og meiri bensínverðshækkun en áður hafði verið reiknað með reiknuðum með vega til hækkunar VNV.

„Á móti vegur að við teljum að verð matvöru hækki minna en við gerðum ráð fyrir og sömu sögu má segja um verð á fatnaði,“ segir í Morgunkorni í morgun.

„Húsnæðisverð eins og Hagstofan mælir það lækkaði í síðasta mánuði og spáum við áframhaldandi lækkun húsnæðisverðs í mánuðinum. Þar sem mikið hefur dregið úr fjölda kaupsamninga verður sífellt erfiðara að leggja mat á verðþróunina en við teljum að óvissan sé heldur í þá átt að húsnæðisverð lækki meira en við gerum ráð fyrir í spánni fyrir júní,“ segir Greining Glitnis.