Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur fallið að undanförnu eftir að hafa náð hámarki í lok mars.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Verðbólguálag til þriggja ára fór hæst í 8% í mars en er nú komið í u.þ.b. 5%. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað undanfarið en á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkað mjög ört.

Greiningadeild Kaupþings segir verðbólguálagið hafa hækkað mikið í mars vegna gengisfalls krónunnar en verðbólguhraðinn virðist nú hafa náð hámarki að mati greiningadeildarinnar.

„Verðbólguspá Greiningardeildar gerir hinsvegar ráð fyrir 4% meðalverðbólgu næstu þrjú árin og er því mat markaðsaðila sem fyrr yfir okkar verðbólguspá,“ segir í Hálffimm fréttum.

Skiptavextir gefa aðra mynd

„Eftir mikla lækkun gjaldmiðlaskiptavaxta eru ríkisbréf orðinn fýsilegur kostur fyrir erlenda fjárfesta til að krækja sér í íslenska vexti. Eftirspurn eftir bréfunum hefur því aukist undanfarið sem kemur fram í lækkun kröfunnar.

Það er forvitnilegt að skiptavextir hafa lækkað lítið á sama tíma og krafa ríkisbréfa hefur hríðfallið. Því hefur verðbólguálag miðað við skiptavexti lækkað mun minna. Frá því í mars hefur verðbólguálag m.v. skiptavexti lækkað úr 8% í rúmlega 7%, eða aðeins um 1%,“ segir Greiningadeild Kaupþings í Hálffimm fréttum.