Verðbólguvæntingar í Bretlandi náðu nýjum hæðum í ágústmánuði þrátt fyrir lækkanir á orkuverði að undanförnu. Þetta bendir til þess að erfitt verði fyrir Englandsbanka að lækka stýrivexti í náinni framtíð.

Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir hönd Englandsbanka gera neytendur ráð fyrir að verðlag muni hækka um 4,4% á næsta ári og hafa væntingarnar aldrei verið hærri frá því að mælingar á þeim hófust árið 1999. Í maí á þessu ári gerðu neytendur ráð fyrir 4,3% verðhækkunum.

Mælingin á verðbólguvæntingum rímar við verðbólgumælingar en verðbólga var 4,4% í júlímánuði. Verðbólgumarkmið Englandsbanka er um 2%.

Niðursveiflan í bresku efnahagslífi og lánsfjárkreppan hefur gert það að verkum að bankinn hefur lækkað stýrivexti þrisvar sinnum frá því í desember í fyrra, eða úr 5,75% niður í 5%.