Breska verðbréfafyrirtækið Casanove hefur nú sent frá sér greiningu á Actavis og er fyrirtækið fjórði erlendi aðilinn sem sendir frá sér greiningu á félaginu. Hin fyrirtækin eru Merrill Lynch, ABN Amro og Credit Suisse. Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, segir það mjög jákvætt að sjá svona öflugan greiningaraðila gefa út verðmat á félaginu.

Casanove telur að meðaltekjuvöxtur fyrirtækisins verði um 10% til ársins 2009. Þeir búast við að framlegð fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBIDTA framlegð) aukist um fjögur prósentustig frá árinu 2006 til ársins 2009. Casanove telur einnig að Actavis sé um 5% undirmetið á markaði ef tekið er tillit til kennitalna ársins 2007 en ef horft sé til ársins 2008 þá sé það undirmetið um 18% í samanburði við önnur sambærileg félög. Í sjóðsstreymisgreiningu þeirra telja þeir að undirmat sé um 20% sé horft til ársins 2008 og telja tækifæri framundan hjá félaginu.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Halldór að Casanove sé búið að vera að skoða Actavis í rúma níu mánuði og þeir hafi komið tvisvar sinnum til Íslands og þekki orðið félagið mjög vel og hafi oft fundað með stjórnendum og að vel hafi gengið að upplýsa þá um stefnu og annað slíkt hjá Actavis.

Einnig gefur Casanove sér þær forsendur að ef kaup Actavis á þýska lyfjafyrirtækinu Merck gangi eftir þá geti falist í því umtalsverð samlegðartækifæri og að hagnaður á hlut geti aukist um allt að 30% til ársins 2009. Ef að það myndi standast þá væri fyrirtækið 50% undirmetið að mati Cazanove.

"Við höfum lýst yfir áhuga okkar á samheitalyfjahluta Merck og höfum tryggða fjármögnun á félaginu ef við teljum áhugavert að gera formlegt tilboð í félagið. Að baki fjármögnuninni standa alþjóðlegu bankarnir JP Morgan, UBS og Deutsche Bank og við höfum einnig fengið heimild hluthafafundar til að auka hlutafé félagsins umtalsvert ef stjórn félagsins telur það áhugavert. Þannig að við erum vel í stakk búin til að fjármagna kaup á þessari stærðargráðu," segir Halldór. "En aftur á móti höfum við ekki tekið ákvörðun um það hvort við munum gera formlegt tilboð í félagið og alls óvíst hvort af þessum kaupum verði. Þá á einnig eftir að skýrast betur hvert verðmatið á Merck verður og hvaða hlutar félagsins verða boðnir til sölu."

Að lokum telja Casanove að ef kaup fyrirtækisins á Merck ganga ekki eftir þá muni Actavis verða áhugavert skotmark fyrir önnur fyrirtæki. Nefna þeir máli sínu til rökstuðnings þegar kaup Smith & Nephew á Biomet gengu ekki eftir á seinni hluta ársins 2006. Bréfin í Smith & Nephew hafa hækkað um 20% frá þeim tíma.