Einar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands, gerir ráð fyrir því að við lok þriðja ársfjórðungs þessa árs verði fyrst hægt að annast uppgjör á verðbréfum í evrum hér á landi. Til að svo geti orðið þarf Verðbréfaskráningin að ná samstarfi við erlendan aðila. Einar segir að viðræður hafi hafist við Seðlabanka Finnlands í desember síðastliðnum. Markmiðið sé að fá aðild að greiðslumiðlunarkerfi evrópsku seðlabankanna, sem kallist Target 2. Nú sé verið að innleiða það kerfi í löndum Evrópusambandsins. Finnarnir fari inn í það kerfi í lok febrúar. Ekki fyrr en þá verði litið til Íslands.

"Í lok þriðja ársfjórðungs 2008 verðum við komin með endanlega lausn í þessum málum," segir Einar. "Þá fyrst erum við tilbúin til að gera upp evruviðskipti." Hann segir að umrætt kerfi, sem nú sé horft til, bjóði upp á varanlega lausn. Það hafi líka marga kosti fyrir bankakerfið. "Þeir ættu [með því] að geta náð talsverðri hagræðingu í greiðslumiðluninni hjá sér og í fjárstýringunni," segir hann. "Við teljum að þetta sé því ekki bara spurning um að leysa uppgjör á verðbréfum í evrum heldur líka að bjóða ný tækifæri fyrir banka."

Nokkur íslensk fyrirtæki hafa, eins og kunnugt er, lýst yfir vilja til að skrá hlutafé sitt í evrum. Þau eru Straumur, Exista, Alfesca, Össur og Marel. Straumur hugðist skrá hlutafé sitt í evrum fyrst íslenskra félaga hinn 20. september 2007. Af því varð ekki vegna athugasemda Seðlabanka Íslands. Kauphöllin hefur sagt að hún sé engin fyrirstaða en fram til þessa hefur skráning á eignarhaldi hjá Verðbréfaskráningunni eingöngu farið fram í íslenskum krónum. Það sama á við um greiðsluuppgjör hjá Seðlabankanum.

Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums, sagði á samkomu Viðskiptablaðsins um jólin að það hefði valdið vonbrigðum hve hægt hefði gengið hjá stjórnvöldum að gera fyrirtækjum kleift að skrá hlutafé sitt í evrum.