Fjármálaeftirlitið hefur gefið út starfsleyfi lánafyrirtækis til Verðbréfastofunnar hf. frá og með 9. desember síðastliðnum segir í tilkynningu félagsins. Með því hafa fyrirtækinu opnast leiðir til hvers kyns útlánastarfsemi og annarra viðfangsefna fjárfestingarbanka til viðbótar við þá almennu þjónustu verðbréfafyrirtækis sem Verðbréfastofan hefur annast til þessa. Ákveðið hefur verið að færa starfsemi félagsins á næstunni undir nafnið VBS fjárfestingarbanki.

Verðbréfastofan hf. var stofnuð í október 1996 og fékk starfsleyfi viðskiptaráðherra í nóvember sama ár sem löggilt verðbréfafyrirtæki. Félagið hefur notið farsældar í starfsemi sinni og vaxið traustum skrefum allt frá stofnun. Efnahagsreikningur Verðbréfastofunnar nemur nú 5,5 milljörðum króna og eigið fé hennar er um einn milljarður króna. Alls mynda 70 einstaklingar og félög hluthafahóp Verðbréfastofunnar og hjá henni eru 24 starfsmenn.

Framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar hf. og einn af stofnendum hennar er Jafet Ólafsson. Formaður stjórnar er Frosti Bergsson og aðrir í stjórn félagsins eru Bolli Kristinsson, Eiríkur Tómasson, Gísli Kjartansson og Magnús Gunnarsson. Verðbréfastofan er aðili að Kauphöll Íslands.

Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri: ?Þetta er ánægjulegur áfangi í sögu Verðbréfastofunnar. Við höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á vandaða og óh'ða ráðgjör og alla tíð notið samstarfs við stóran hóp trasustra viðskiptavina, jafnt úr röðum einstaklinga sem fyrirtækja og fagfjárfesta. Á þeim grunni hefur starfseminni vaxið fiskur um hrygg með hverju árinu sem hefur liðið og með fjárfestingarbankaleyfinu aukast möguleikar okkar til þess að þjóna þessum góða hópi og nýjum viðskiptavinum á fleiri sviðum".