Héraðsdómur Reykjavíkur féllst undir lok síðasta mánaðar á riftunarkröfu þrotabús varðandi ráðstöfun fasteignar í sem hafði verið í eigu félagsins. Aðdragandi og atvik málsins virðast við fyrstu sýn vera óspennandi með öllu en við nánari lestur má sjá afar áhugavert réttarfarlegt álitaefni sem, ef verður látið standa óhaggað, gæti opnað á skemmtilega möguleika fyrir skiptastjóra landsins.

Aðilar málsins eru annars vegar þrotabú Ystasels 28 ehf. og breska félagið Ladylovelux Ltd. Sumarið 2017 ráðstafaði Ystasel fasteign í eigu þess, nánar til tekið Ystaseli 28, til breska félagsins. Greitt var fyrir yfirtökuna með því að taka yfir áhvílandi lán og restin greidd með peningum. Samanlagt kaupverð var 85 milljónir króna.

Í september 2019 fór Ystasel í þrot og krafðist skiptastjóri búsins þess í janúar 2020 að Ladylovelux myndi greiða þrotabúinu 85 milljónir króna. Því var hafnað af hálfu breska félagsins og dómsmál höfðað í kjölfarið. Taldi skiptastjóri að félagið hafi verið ógjaldfært þegar viðskiptin áttu sér stað eða orðið það í kjölfar þeirra. Um ótilhlýðilega handa stefnda Ladylovelux og því riftanlega ráðstöfun væri því að ræða.

Lengjast frestir vegna framlagningar tryggingar?

Dómsmálið var þingfest 26. maí 2020 og fór lögmaður Ladylovelux þá fram á að þrotabúið setti fram málskostnaðartryggingu. Slíkt er alvanalegt þegar eignalaus eða eignalítil þrotabú eru til sóknar. Með úrskurði 16. júní var þrotabúinu gert að setja málskostnaðartryggingu innan fjögurra vikna og var það gert 6. júlí.

Næsta þinghald í málinu var í september og óskaði lögmaður Ladylovelux þá eftir fresti til að leggja fram greinargerð í málinu. Var það samþykkt og var henni skilað í byrjun október. Um svokallaða frávísunargreinargerð var að ræða, heimild er fyrir slíkum samkvæmt réttarfarslöggjöfinni, og að félagið áskildi sér rétt til þess að leggja fram skila greinargerð um efnisvarnir ef ekki yrði fallist á frávísunarkröfuna. Málflutningur um frávísun fór fram í janúar síðastliðnum og í kjölfarið var kveðinn upp úrskurður þar sem dómari hafnaði því að vísa málinu frá.

„Við uppkvaðningu úrskurðarins sagði dómari málsins að hann gerði ráð fyrir því að ég óskaði eftir fresti til að skila greinargerð um efnisþátt málsins og ég játti því, taldi fjögurra vikna frest hæfilegan. Því mótmælti skiptastjórinn og taldi að frestir til að leggja fram slíka greinargerð væru löngu liðnir,“ segir Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Ladylovelux í málinu.

Málflutningur fór fram um þau rök skiptastjórans og lauk þeim með því því að beiðni Ladylovelux, um greinargerðarfrest til að taka til efnisvarna, var hafnað. Var það gert með þeim rökum að það væri meginregla um að ein greinargerð væri lögð fram undir rekstri einkamáls, þar sem bæði kæmu fram form- og efnisvarnir. Undanþága til að skila frávísunargreinargerð væri til staðar „enda sé hún lögð fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins“. Sá tímafrestur væri fortakslaus.

Gerði ráð fyrir að málið færi á reglulegt þing aftur

Í úrskurði héraðsdóms sagði að málið hefði verið þingfest 26. maí 2020 og frávísunargreinargerðin lögð fram 6. október sama ár. Það væri augljóslega mun lengri tími en fjórar vikur og því engin heimild til framlagningar hennar.

Að auki var vísað til úrskurðar Landsréttar frá því í desember 2020 í áþekku máli, sá munur var þó á málunum að fyrirtaka hafði verið í fyrra málinu áður en til réttarhlés vegna sumarfría kom. Þar hafði málskostnaðartryggingar verið krafist, síðan lögð fram frávísunargreinargerð og að endingu hafnað um að frest til að skila greinargerð um efnisvarnir. Í þeim úrskurði Landsréttar sagði að hagkvæmnissjónarmið byggju að baki undanþágunni og hætt væri að hún gæti „snúist upp í andhverfu sína“ ef fallist yrði á frest til að skila greinargerð í síðari atrennu.

Ladylovelux var því synjað um að skila greinargerð um efnisvarnir og málið í kjölfarið dæmt sem útivistarmál, það er málið var dæmt eftir kröfum þrotabúsins þar sem engar efnisvarnir höfðu komið fram af hálfu félagsins. Ráðstöfun eignarinnar var því rift og félagið dæmt til að greiða þrotabúinu 85 milljónir króna.

Fordæmið gæti reynst dauðafæri

„Ég verð að viðurkenna að ég kom af fjöllum þegar skiptastjóri taldi ekki lagaheimild til staðar til að skila greinargerð um efnisvarnir. Ég var hjartanlega ósammála þeirri afstöðu og taldi úrskurð Landsréttar efnislega rangan. Það liggja fyrir dómar í Hæstarétti þess efnis að þegar krafist er málskostnaðartryggingar þá lengist frestir eðlilega, enda þarf að bíða eftir því að tryggingin sé sett svo unnt sé að ákveða fresti. Það var ekki búið þegar ég átti að vera, samkvæmt úrskurðinum, að skila greinargerð,“ segir Heiðar.

Bendir hann einnig á að í kjölfar þess að úrskurður um málskostnaðartrygginguna átti sér stað hafi hann verið í samskiptum við þann dómara sem upphaflega fór með málið. Í tölvupóstssamskiptum þeirra á milli, sem skiptastjóri fékk einnig afrit af, hafi komið fram að í kjölfar þess að tryggingin var lögð fram myndi málið fara aftur inn á reglulegt dómþing og í raun þingfest að nýju. Það var í raun gert þegar málið var tekið fyrir að nýju eftir sumarfrí, það er í september, og fjögurra vikna fresturinn því ekki liðinn.

„Ég óskaði þess að fá að leggja umrædd tölvupóstsamskipti fram í málinu en var hafnað um það þar sem efnisgreinargerð hafði ekki verið skilað. Að virtri niðurstöðu um að hafna fresti til framlagningar greinargerðar, sem ég tel ranga, er aftur á móti rétt að kveða upp útivistardóm. Þannig næsta skref er að óska eftir endurupptöku á málinu í samræmi við heimild einkamálalaganna,“ segir Heiðar. Þar standi málið nú.

Rétt er að geta þess í lokin að fái þessi framkvæmd að standa óhögguð er auðvelt að ímynda sér að skiptastjórar eignalítilla búa sjái í hendi sér ákveðið tækifæri. Málum verði einfaldlega stefnt inn rétt fyrir dómhlé og þá er hausverkurinn varnarinnar, hvort rétt sé að fara fram á málskostnaðartryggingu og þurfa samt að taka til efnisvarna innan fjögurra vikna eða að sleppa tryggingunni og vona að þrotabúið sé borgunarmaður málskostnaðar ef málið vinnst.