Verð á helstu útflutningsafurðum Íslands var að jafnaði um 15% hærra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði fyrir ári síðan, reiknað á föstu gengi krónu. Á sama tímabili höfðu afurðir til sölu innanlands hækkað um 2,5% umfram almenna verðlagsþróun á sama tímabili segir í frétt Greiningar Íslandsbanka sem styðst við vísitölu framleiðsluverðs sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Verð á afurðum stóriðju var nærri 19% hærra í júlímánuði síðastliðnum en raunin var ári fyrr, sé gengisvísitala krónu notuð til að nálga erlent verð á afurðunum. Rímar það við verðþróun á áli á heimsmarkaði á tímabilinu. Þá hafði verð á sjávarafurðum hækkað um ríflega 10% á sama tímabili, reiknað með þessum hætti. Hagstæð verðþróun erlendis hefur þannig aukið töluvert við útflutningsverðmæti helstu afurða okkar, en á móti vegur vitaskuld að innfluttar hrávörur hafa einnig hækkað verulega í verði á þessum tíma.