Samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins á framboði á atvinnuhúsnæði er lítið til af tómu iðnaðarhúsnæði og verslunarhúsnæði á markaðnum í dag. Töluvert er hins vegar til af lausu skrifstofuhúsnæði.

Samkvæmt talningu Viðskiptablaðsins eru rúmir 22 þúsund fermetrar lausir af iðnaðarhúsnæði og vörugeymslum á höfuðborgarsvæðinu. Um 19 þúsund fermetrar eru lausir af verslunarhúsnæði og tæpir 49 þúsund fermetrar eru lausir af skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Hver er þörfin?

Náttúruleg eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði segir til um hversu mikil þörf er á slíku húsnæði. Fólksfjölgun, bæði fæðingartíðni og aðfluttir til landsins umfram brottflutta, ræður þar miklu um sem og fjöldi ferðamanna.

Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði er alla jafna í takti við einkaneyslu og í spám fyrir hagvöxt er það metið svo að einkaneysla verði burðarstoðin í þeim vexti næstu 2-3 árin.

Að meðaltali voru byggðir um 91 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði á ári á tímabilinu 1995 til 2008. Þar af voru um 33 þúsund fermetrar af iðnaðarhúsnæði og vörugeymslum og 58 þúsund af verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Á árunum 2006-2008 var byggt mun meira en þörf var á næstu árin. Þá voru byggðir 215 þúsund fermetrar af verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Því er árleg þörf töluvert minni en þessar tölur gefa til kynna. Ef „bóluárunum“ er sleppt má sjá að raunveruleg þörf var 40-50 þúsund fermetrar, en ekki 58 þúsund.

Lítið byggt frá 2011

Mikið af atvinnuhúsnæði varð laust haustið 2008 eftir að stóru viðskiptabankarnir féllu. Því voru engar forsendur til að byggja slíkt húsnæði. Einhver uppbygging var þó á árunum 2009-2011 en mikill hluti af því var húsnæði, sem hafði verið byrjað á fyrir hrun. Sem dæmi má nefna verslunar- og skrifstofuhúsnæðið við Urðarhvarf 8, sem er um 16 þúsund fermetrar og er ennþá fokhelt en framkvæmdir við það húsnæði hófust árið 2007. Auk þess hafa einhver sérhæfð húsnæði verið byggð. Má þar nefna hús Alvogen sem eru tæpir 13 þúsund fermetrar.

Á árunum 2011-2016  jókst framboð um tæpa 93 þúsund fermetra af iðnaðarhúsnæði og vörugeymslum eða um 16 þúsund á ári. Framboð af verslunar- og skrifstofuhúsnæði jókst töluvert meira eða um 130 þúsund fermetra eða sem samsvarar um 23 þúsund á ári.

Fyrir utan að að lítið hafi verið byggt var töluvert af þessum þremur flokkum atvinnuhúsnæðis breytt í íbúðir eða hótel. Sem dæmi þá var skrifstofuhúsnæði Arion banka við Laugaveg 120 breytt en þar er nú CenterHotel Miðgarður.

atvinnuhúsnæði 3
atvinnuhúsnæði 3

Verðið mun áfram hækka

Verð á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hríðféll á árunum 2008-2009 og hélt áfram að lækka allt fram til ársins 2012 þegar verðið náði lágmarki. Eftir það fór verðið hækkandi og frá áramótum 2013-2014 hefur verðið  hækkað um 67% að raunvirði samkvæmt vísitölu sem Seðlabankinn gefur út ársfjórðungslega. Síðasta mæling fór fram í júní á þessu ári.  Á árunum 2014 til 2016 hækkaði vísitalan um 12 til 15% á ári en frá júní í fyrra og þar til í júní á þessu ári nam hækkunin 17%.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segist eiga von á atvinnuhúsnæði muni halda áfram að hækka í verði á næstu árum. Það verða engar stökkbreytingar en verðið mun áfram hækka," segir hann.

Atvinnuhúsnæði
Atvinnuhúsnæði

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .