Eðlilegur afsláttur af eigin fé bankanna við sölu ríkisins væri tíu til tuttugu prósent, í stað 40 prósenta sem tíðkast um þessar mundir í Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Capacent sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag . Miðað við þetta nemur virði hlutar ríkisins í bönkunum 390 til 440 milljörðum króna.

Í greiningunni segir að gríðarlegir fjármunir ríkisins liggi í bönkunum. Eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans nemi 462,8 milljörðum króna og 13 prósenta hlutur ríkisins í eigin fé Arion banka sé 25,1 milljarður króna.

Ríkið hefur því samtals 487,9 milljarða króna bundna í bönkunum. Áætlaður kostnaður við byggingu Landspítalans nemur um 85 milljörðum króna og því nema fjármunir sem eru bundnir í bönkunum verðmæti sex Landspítala. Miklu skipti hvaða verð fáist fyrir bankana. Sem dæmi er tekið að 10% afsláttur af eigin fé bankanna nemi um 48,8 milljarðar króna.

Verð bankana ráðast af undirliggjandi rekstri og verðkennitölum annarra banka. Ein ástæða fyrir því að verð banka liggur lægra en það eigið fé sem bundið er í honum er að arðsemi rekstrarins er lægri en sú arðsemiskrafa sem gerð er til rekstrarins.