*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 4. janúar 2021 12:10

Verð Bitcoin tók skarpa dýfu

Eftir nærri fimmtungshækkun það sem af er ári hefur gengi rafmynntarinnar lækkað um 10% á ný. Fjórfaldaðist árið 2020.

Ritstjórn
Gríðarlegan tölvubúnað þarf til að halda utan um færslur á rafmyntum eins og Bitcoin, en slíkt utanumhald er stundum kallað að grafa eftir myntinni því þeir sem halda utan um færslurnar fá greitt í nýjum bitcoin sem verða til.
epa

Rafmyntin Bitcoin byrjaði árið á því að rjúfa 30 þúsund dala múrinn, það er 2. janúar síðastliðinn og náði myntin hæst 34.366,15 dölum að morgni 3. janúar. Eftir nokkra lækkun í 32.807,95 dali um sólarhring síðar, þá tók verðið skarpa dýfu á ný í morgun og fór niður í 29.413,16 dali, en hefur náð sér á strik eilítið á ný aftur og fæst eitt bitcoin nú á 30.773,60 dali.

Það þýðir ríflega 10% lækkun frá hæsta punkti, sem aftur var tæplega 19% hærri en verðið var þegar árið byrjaði þegar það stóð í 28.946,7 krónum. Hækkunin nú er talin vera vegna áhættufjárfesta sem vilja nýta myntina til að ná miklum hagnaði á skömmum tíma, en hún kemur í kjölfar 300% hækkunar á verði rafmynntarinnar á árinu 2020.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan desember rauf rafmyntin 20 þúsund dala múrinn þá í fyrsta skipti. Talið er að hækkunin á síðasta ári hafi mikið til komið til því ýmsir stofnanafjárfestar hafi aukna trú á henni sem og nú er hægt að greiða með henni og öðrum rafmyntum á fleiri stöðum, þar á meðal í gegnum Paypal.

Aðrar rafmyntir hafa einnig farið hækkandi, en sú næst stærsta, Ethereum, hækkaði mun meira árið 2020 eða um 465%. Eitt Ether fæst nú á 952,49 Bandaríkjadali, eða sem nemur tæplega 121 þúsund krónum.

Ef við gerum ráð fyrir að Bitcoin sé að andvirði 30 þúsund dala, væri það að verðmæti um 3,8 milljóna íslenskra króna. Rafmyntin hefur aldrei verið jafnverðmæt, en árið 2017 fór hún nálægt því að fara yfir 20 þúsund dala múrinn, en féll á ný niður í 3.300 dali í kjölfarið.

Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadals veikst vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, og vegna örvunaraðgerða stjórnvalda þar í landi, þó gjaldmiðillinn hafi styrkst fyrst í faraldrinum þegar fjárfestar leituðu þangað í öryggi.

Telja sumir greinendur að með áframhaldandi veikingu dalsins muni bitcoin styrkjast í samanburði að því er BBC segir frá, en eins aðrir, þar á meðal bankastjóri Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, Andrew Baily hafa varað við myntinni sem greiðslumiðils.

„Ég verð að vera heiðarlegur í því að það er erfitt að sjá að Bitcoin hafi það sem kallað er eiginlegt virði,“ segir Bailey. „Það getur verið að það hafi óeiginlegt virði í þeim skilningi að fólk vill eiga það.“

Stikkorð: Bitcoin rafmyntir ethereum