Eigendur fasteigna í glæsihverfum Lundúna hafa þurft að lækka uppsett verð á fasteignum sínum í sumar. Markaðurinn var mjög rólegur í sumar, samkvæmt upplýsingum breska ráðgjafafyrirtækisins Rightmove , sem fylgist með þróun mála á fasteignamarkaði. Aðgerðir stjórnvalda og Englandsbanka hafa hins vegar haldið verðinu uppi en það hefur hækkað um 5,5% frá áramótum í Bretlandi, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar . Verðhækkunin er meiri í Lundúnum en þar hefur meðalverðið hækkað um 10% frá áramótum.

Samkvæmt samantekt Rightmove var meðaltalslækkun á fasteignamarkaði meiri í Lundúnum í ágúst en annars staðar. Þar lækkaði fasteignaverð að meðaltali um 2,8% borið saman við 1,8% um landið allt. Lækkunin var svo enn meiri í auðmannahverfum á borð við Kensington, Camden og Westminster. Verst er staðan í Camden-hverfi en fasteignaeigendur þar þurftu að lækka verðmiða á húsum sínum um 6,9% í mánuðinum.