Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 7,6% á milli áranna 2012 og 2013 og verð á sérbýli um 3,5%. Þetta var svipuð hækkun á fjölbýli og á milli áranna þar á undan en nokkuð lægri á sérbýli, að sögn hagfræðideildar Landsbankans.

Deidin bendir á það í Hagsjá sinni í dag að verð á íbúð í fjölbýli hefur hækkað um rúm 20% á þremur árum en sérbýli um tæp 13%. Bent er á að verð á sérbýli hækkaði mun meira en fjölbýli á árunum fyrir hrun eftir að auðveldara varð að fjármagna kaup á stórum eignum. Sú þróun hefur nú snúist við m.a. vegna meiri eftirspurnar eftir fjölbýli.

Þá bendir hagfræðideildin á að raunverð fjölbýlis hafi hækkað um rúm 7% á síðustu þremur árum, en raunverð sérbýlis staðið í stað á sama tíma. Á árinu 2013 námu viðskipti með fjölbýli um 80% af viðskiptum með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutfallið verið nokkuð stöðugt. Síðustu tíu árin fór það hæst í 86% á árinu 2005 og lægst í 79% á árunum 2009 og 2010.