Verð á flugmiðum til Kaupmannahafnar og Billund í Danmörku hefur lækkað um 10% frá síðasta mánuði, samkvæmt verðkönnun Dohop. Dohop hefur tekið saman verð á flugi frá Íslandi næstu vikur og borið saman, til áfangastaða þar sem samkeppni er á markaðnum. Skoðað er flugverð tvær, fjórar og átta vikur fram í tímann og meðalverðið reiknað. Niðurstaðan er síðan borin saman við samskonar könnun sem framkvæmd var fyrir mánuði. Kemur þetta fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Flugverð lækkar milli tímabila og skiptir þar lækkun á flugi til Danmerkur mestu, en flug til bæði Billund og Kaupmannahafnar lækkar um rúm 10%. Stærsta einstaka lækkunin milli kannana er flug til Hamborgar, sem lækkar um rúm 12%. Það kostar á milli 50 og 65 þúsund að ferðast til 12 af 21 borga sem skoðaðar voru.

Primera ódýrast til Spánar

Primera flýgur til tveggja borga á Spáni, Barcelona og Alicante og býður mun lægra verð á þeim leiðum en Icelandair og WOWair. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet er með lægstu verðin heilt yfir, en flugfélagið býður flug til borga í Bretlandi, Skotlandi, Írlandi og Sviss.