Fataverslun var 9,7% meiri í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Þetta er viðsnúningur frá mars þegar fataverslun dróst saman um 13% miðað við sama mánuð árið 2010 samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknasteturs verslunarinnar.

Í fréttatilkynningu frá rannsóknasetrinu í mars sagði að áhrif „efnahaghrunsins 2008 hafði ekki eins fljótt áhrif á fataverslun eins og aðrar tegundir sérverslana. Samdráttur í fataverslun hófst ekki af alvöru fyrr en um mitt árið 2010 og stendur enn eins og kemur fram hér að ofan. Gömlu flíkurnar eru því nýttar betur nú en áður." Nú virðist þessi þróun vera að snúast við.

Verð á fötum lækkaði um 1,4% í apríl síðastliðnum frá sama mánuði ári fyrr. Velta skóverslunar jókst um 10,8% í apríl á föstu verðlagi  miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 0,5% frá apríl í fyrra.