*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 15. febrúar 2021 13:41

Verð á gistingu lækkað verulega

Verð á gistingu á hótelum og gistiheimilum hér á landi lækkaði um 12,6% í fyrra í samanburði við árið 2019.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verð á gistingu á hótelum og gistiheimilum hér á landi lækkaði um 12,6% í krónum í fyrra borið saman við árið 2019, að því er kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Er um að ræða mestu verðlækkun á gistingu á einu ári í sögunni en fyrra met var árið 2019 þegar verð á gistingu lækkaði um 8,3%.

„Verðlækkun á gistingu hefur verið frekar fátíð hér á landi en frá árinu 1998 má finna tvö önnur ár þar sem verðið lækkaði. Þetta var árið 2005 þegar verðið lækkaði um 4,6% og 1998 þegar verðið lækkaði um 1,3%. Verðlækkun síðustu tveggja ára má fyrst og fremst skýra með minni eftirspurn eftir gistingu hér á landi. Árið 2019 dró úr eftirspurn erlendra ferðamanna vegna falls WOW air og í fyrra voru það áhrif farsóttarinnar,“ segir í Hagsjánni. 

Langstærsti viðskiptamannahópur íslenskra hótela og gistiheimila séu útlendingar og því taki verðlagningin mið af þróun á gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

„Sé verðið fært yfir í evrur sést að verðið lækkaði um 22,2% á síðasta ári, og var það þriðja árið í röð sem verð lækkaði. Árið 2019 lækkaði verðið um 15,1% og um 4,1% árið 2018. Verðið náði tímabundnu hámarki árið 2007 en þá var það litlu lægra en það var í fyrra eða 3,6% lægra. Verðið náði síðan lágmarki sínu á þessari öld árið 2009 en frá þeim tímapunkti og fram til ársins 2017 þegar verðið varð hæsta hækkaði verðið um 170%,“ segir jafnframt í Hagsjánni.