Verð fyrir þjónustu á hótelum og gistiheimilum hefur hækkað um 61% áramótum. Þetta er langtum meiri hækkun en sést hefur í gegnum tíðina á fyrri hluta árs. Greining Íslandsbanka spyr í Morgunkorni sínu í dag hvort ýmsir í þessum geira séu ekki farnir að seilast nokkuð langt í að nýta sér aukna eftirspurn erlendra ferðamanna eftir gistingu.

Fram kemur í Morgunkorninu í tengslum við birtingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs, verðbólgutölum og gengisstyrkingu krónunnar að í gegnum tíðina hafi verðið hækkað á bilinu 18-35% á fyrri hluta árs.

„Má segja að raungengið, eins og það blasir við erlendum ferðamönnum, hækki nú mun hraðar en ef horft er til almennra neysluútgjalda,“ segir Greining Íslandsbanka.