Verð á gulli hækkaði í dag þegar gjaldeyrissjóðir minnkuðu stöður sínar Bandaríkjadal og olíuverð lækkaði.

Únsan af gulli kostar nú 1.199 dali og hefur ekki verið hærra síðan í júní á síðasta ári.

Verðið hefur hækkað um 13% það sem af er ári. Brent Norðursjávarolía hefur lækkað um 11% og kopar hefur lækkað um 2% það sem af er ári.

James Steel, greinandi hjá HSBC bankanum, segir í samtali við Financial Times að tengsl milli olíu og gulls hafi rofnað þegar olía fór undir 50 dali tunnan. Að hans sögn þá lækkar verð á gulli almennt þegar olía lækkar.

Hins vegar hafi lækkunin orðið svo mikil að hún olli óróleika í heimsbúskapnum, sem aftur olli því að gull er keypt og verð hækkar.