Heimsmarkaðsverð á gulli hefur fallið um 3% í dag og bætist það við 5,3% verðfall fyrir helgi. Verði stendur nú í 1.406 dölum á únsu og hefur það ekki verið lægra í tvö ár eða síðan í mars árið 2011. Til skamms tíma fór það reyndar undir 1.400 dali. Verðið er nú 20% lægra en í ágúst árið 2011 þegar það náði hæstu hæðum.

Erlendir fjölmiðlar, s.s. Bloomberg-fréttaveitan , segir verðfallið skýrast m.a. af þeirri kröfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að seðlabanki Kýpur selji megnið af gullforða sínum til að greiða fyrir alþjóðlegum neyðarlánum. Litlu virðist skipta þótt Kýpverjar hafi líst því yfir að þeir ætli ekki að verða við þessari kröfu, að sögn Bloomberg. Þá segir fréttaveitan að hrávöruverð hafi almennt lækkað upp á síðkastið auk þess sem vísbendingar eru um að fjárfestar hafi dregið úr kaupum á gulli til varnar aukinni verðbólgu.