Alþjóðlega námafyrirtækið Rio Tinto greindi frá því í morgun að það hefði hafnað yfirtökutilboði keppinautarins Glencore snemma í ágústmánuði. BBC News greinir frá málinu.

Að sögn fyrirtækisins var tilboðinu hafnað þar sem það var ekki nægilega hagstætt fyrir hluthafa fyrirtækisins. Eftir að félagið sendi frá sér tilkynninguna hefur verð hlutabréfa í félaginu tekið stökk í kauphöllinni í Lundúnum nú í morgun, og hafa bréfin hækkað um 5,09%.

Rio Tinto er stærsta fyrirtæki heims í sínum geira og nemur markaðsvirði þess um 56 milljörðum punda.