Verð á hótelherbergjum í Lundúnum hefur hækkað allt að tvöfalt í verði á milli ára á því tímabili sem Ólympíuleikarnir fara fram í borginni í sumar.

Skv. könnun sem bókunarsíðan Hotels.com gerði nýlega er verð á hótelherbergjum í ágúst nk. allt að 102% dýrara en það var á sama tíma í fyrra. Skv. síðunni er meðalverð á hótelherbergjum í Lundúnum 213 Sterlingspund á nótt í allt sumar, sem er um 45% hærra en það var í fyrra.

Þess má geta að meðalverð á hótelherbergjum á heimsvísu hækkaði um 4% á milli ára í ár.

Til upplýsinga má geta þess að það er ýmislegt sem getur haft áhrif á verð hótelherbergja. Þannig hefur pólitískur óstöðugleiki og alda mótmæla leitt til þess að verð á hótelherbergjum hefur lækkað um 10% að meðaltali á milli ára í Aþenu í Grikklandi.

Í mars í fyrra lækkaði verð á hótelherbergjum mjög skyndilega um 16%í Hiroshima og 11% í Kyoto í Japan eftir jarðskjálftana sem urðu þar í landi í sama mánuði. Þá lækkaði verð á hótelum um 22% í Egyptalandi í fyrravor í kjölfar arabíska vorsins og þeirra mótmæla sem urðu í landinu. Á sama tíma lækkaði hótelverð í Túnis um 9%, í Líbanon um 21% og í Katar um 27%.

Efnahagsvöxtur getur líka haft nokkur áhrif. Sterkt gengi ástralska dollarsins og mikill hagvöxtur þar í landi hefur leitt til hækkunar á verði hótelherberga um 13% á milli ára. Í Rio de Janeiro hefur verð á hótelherbergjum um 13% á milli ára og í Hong Kong um 18%.