Með tilkomu nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins sem tekur gildi hér á landi frá og með 1. júní næstkomandi þurfa ýmis algeng hreinsiefni sem notuð eru við þrif á heimilum að vera með merkingum á Íslensku.

Félag Atvinnurekenda segir breytinguna muni hækka verð á þessum efnum hérlendis um að lágmarki 10-20%, og má þar nefna uppþvottalög, gluggasprey, gólfsápu og þvottaefni.

Mögulegt að hverfa frá meginreglu um íslensku

Félagið hefur sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu erindi vegna málsins og bent á þann mikla kostnaðarauka íslenskra fyrirtækja sem breytingunni fylgi sem geti lent á neytendum með hærra vöruverði.

Benti félagið á að reglugerðinni frá ESB sé aðildarríkjum veitt svigrúm til að hverfa frá meginreglunni um að merkingarnar þyrftu að vera í tungumáli viðkomandi ríkis.

Enn eitt dæmið um svigrúm sé ekki nýtt

„Þetta er að okkar mati enn eitt dæmið um að íslensk stjórnvöld nýta ekki svigrúmið sem er gefið í Evrópureglum til að fara þá leið sem er minnst íþyngjandi fyrir fyrirtækin,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA í frétt félagsins um málið.

„Vissulega liggja sjónarmið um öryggi neytenda að baki kröfunni um merkingar á íslensku.

Annars vegar þarf að vigta þau rök á móti hagsmunum neytenda af að fá þessar vörur á sem hagstæðustu verði og hins vegar þarf að horfa til þess að það hefur lengi þótt duga að hreinsiefni með vægum efnablöndum væru merkt á ensku og/eða Norðurlandamálum, enda er kunnátta í þeim tungumálum útbreidd hér á landi.

Við hvetjum ráðuneytið til að nýta það svigrúm sem er gefið í reglunum.“

Áhersla á þjóðtungu meðal aðildarríkja

Í máli fulltrúa Umhverfisstofnunar á kynningarfundi um málið segir að nauðsynlegt sé að merkingarnar séu á íslensku til að tryggja örugga notkun.

Auk þess að vera tungumálið sem flestir myndu skilja var það sagt vera vegna þess að mikil áhersla væri lögð á það meðal aðildarríkja EES samningsins, það er ESB landanna og EFTA, að merkingar væru á þjóðtungu viðkomandi aðildarríkis.

Ekki kannað hvort undanþága sé nýtt annars staðar

Á fundinum neitaði fulltrúi stofnunarinnar því aðspurður að undanþágan hefði verið skoðuð sérstaklega með tilliti til smæðar Íslands né heldur verið kannað hvernig framkvæmdin væri í öðrum örríkjum innan EES svæðisins.

Gagnrýndu fundarmenn röksemdir Umhverfisstofnunar fyrir kröfunni um íslenskar merkingar, því vegna smæðar markaðarins væri nánast útilokað fyrir erlenda framleiðendur að sérmerkja vörur fyrir Ísland.

Þyrftu innflytjendur því að sérmerkja allar vörur sem myndi leiða til allt að 30% hækkunar á útsöluverði.