Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin misseri. Þú þróun hélt áfram á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hefur hækkað samfleytt 10 fjórðunga í röð. Síðast lækkaði verðið milli annars og þriðja ársfjórðungs 2017.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbanka Íslands.

Í greiningunni segir jafnframt að verð sjávarafurða í erlendri mynt er nú í sögulegu hámarki.

„Covid-19-faraldurinn hefur haft mikil áhrif á verð og sölu á íslenskum sjávarafurðum erlendis. Lokun veitingastaða hafði mikil áhrif á eftirspurn eftir ferskum fiski en útflutningsverð á ferskum þorski er umtalsvert hærra en á frystum eða söltuðum. Einnig hafa orðið tafir á greiðslum og afpantanir á sjávarafurðum og kaupendur hafa þrýst á um verðlækkanir. Þessu til viðbótar hefur brottfall nánast alls farþegaflugs til og frá landinu haft sín áhrif á flutning á ferskum fiski á erlenda markaði,“ segir þar.

Mun ganga erfiðlega

Jafnvel þó að búið sé að opna mikið af veitingastöðum í Evrópu á ný mun ganga mjög erfiðlega að koma ferskum fiski til þeirra á meðan flug liggur niðri. Þó mælst hafi verðhækkun á fyrsta fjórðungi í heild sinni gerir Landsbankinn ráð fyrir að nokkur verðlækkun hafi átt sér stað eftir að efnahagslegra áhrifa faraldursins fór að gæta í marsmánuði.

Verðþróun matvæla á heimsmarkaði hefur hins vegar legið niður á við síðustu mánuði. Þannig mældist stöðug verðlækkun frá febrúar og fram í apríl milli mánaða. Til samanburðar hækkaði verð á botnfiski og flatfiski frá Íslandi um 1,1% í erlendri mynt milli fyrsta fjórðungs og fjórða fjórðungs síðasta árs.

Útflutningur á sjávarafurðum nam 63,9 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi borið saman við 66,5 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, en hvort tveggja er á föstu gengi. Samdrátturinn nam 2,7 milljörðum, eða 4%. Það sem helst skýrir samdráttinn er að útflutningsverðmæti loðnu dróst saman um 2,2 milljarða, eða um 76% milli ára.

Í ár brást loðnuvertíðin annað árið í röð, eins og vel er þekkt. Segir í Hagsjánni að mikill samdráttur í útflutningi loðnuafurða milli ára skýrist af því að í fyrra voru til meiri birgðir af loðnuafurðum frá fyrra ári. Birgðirnar eru mun minni nú og útflutningur þess vegna minni en í fyrra á sama tíma.