Verð hlutabréfa í Kína er talið vera of hátt þrátt fyrir að CSI 300, sem er markaðsvigtuð vísitala A-hlutabréfa á Shenzhen og Shanghai, hafi tekið enn aðra dýfuna í nótt. Í Morgunpósti IFS Greiningar segir að helstu rökin séu að margfaldarar séu enn þá of háir miðað við samanburð.

Miðgildi hlutfalls markaðsvirðis og hagnaðar (V/H hlutfall) var 108 þegar hæst var. Hlutabréf í kauphöllinni í Shanghai og Shenzhen féllu um 5,9% og 3% í nótt. Viðskipti með hlutabréf í Kína eru lokuð ef þau hækka/lækka um 10% eða meira á einum degi. Lokað var fyrir viðskipti með 71% hlutabréfa í kauphöllinni í Shanghai sem sýnir hversu mikill órói er í raun þar á markaði.

Þá er bent á það í Morgunpóstinum að fjárstreymi út úr Kína sé mikið þar sem hægt sé að koma peningum úr landi til Hong Kong í gegnum kauphöllina í Shanghai. „Það eru í raun stórar stofnanir sem eru að koma peningunum úr landi en eiga eflaust eftir að koma með hann aftur inn þegar líða tekur á árið eða á því næsta. Árið 2013 voru u.þ.b. 100 milljón hlutabréfareikninga í eigu Jóns og Gunnu þar ytra og hafa eflaust aukist síðan þá. Það eru þessir reikningar sem eru að taka mesta höggið og það voru sömu reikningar sem tóku mesta höggið árið 1929 í Bandaríkjunum,“ segir í póstinum.