Verð á kjúklingi hefur hækkað töluvert í verði undanfarið. Hækkunin í febrúar hjá Holtakjúklingi, sem er stærsti aðili á markaði, var 5% sem bætist ofan á 9% hækkun í desember. Matthías Hannes Guðmundsson, framkvæmdastjóri Holtakjúklings, segir að verð á fóðri drífi hækkanir áfram. Alls nemi fóðurkostnaður um 50-55% af heildarkostnaði.

„Það hafa veirð geysilegar hækkanir á fóðri undanfarin tvö ár. Í raun er verð á kjúklingi ennþá undir þeirri breytingu, sem við höfum að hluta til mætt með aðhaldsaðgerðum. En við þurfum því miður að velta hækkunum áfram út í verðlag,“ segir Matthías í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að jafnvel sé búist við frekari hækkununum í maí, þegar nýjar sendingar af fóðurblöndum koma til landsins. „Síðan eru menn vongóðir um að verð lækki eitthvað með sumrinu, að því gefnu að ekki komi til uppskerubrests.“ Matthías óttast þó að hátt fóðurverð sé komið til að vera og verði hátt áfram. Reynt sé að draga úr hækkunum á útsöluverði eins og hægt er en það sé erfitt. Til dæmis hafi hækkun á fóðurverði í febrúar verið 10% og kjúklingur hafi við það hækkað um 5%.